Frágangur eldri náma
Um er að ræða frágang gamalla náma þar sem jarðefni voru numin til vegagerðar fram að gildistöku náttúruverndarlaga árið 1999. Gömul náma telst vera sú sem opnuð var fyrir gildistöku laganna.
Um er að ræða frágang gamalla náma þar sem jarðefni voru numin til vegagerðar fram að gildistöku laga um náttúruvernd nr. 44/1999, en ný lög um náttúruvernd nr. 60/2013 tóku gildi 15. nóvember 2015.
Í dag er almenna reglan sú að ganga frá öllum námum við lok framkvæmda og má telja óþekkt að opinberir aðilar skilji efnistöku-svæði eftir ófrágengin og ónotuð að framkvæmdum loknum, nema um viðhaldsnámur sé að ræða.
Gömul náma telst vera sú sem opnuð var fyrir gildistöku eldri
laga um náttúruvernd árið 1999, en þar var að finna ákvæði um frágang
efnistökusvæða (49. gr.). Ákvæðið var sett til að tryggja að gengið yrði frá
efnistökusvæðum að efnistöku lokinni, en á því hafði verið misbrestur, bæði hjá
opinberum aðilum og einkaaðilum. Í lögunum var einnig sérstakt ákvæði til
bráðabirgða um frágang á eldri efnisnámum en það féll út í nýju lögunum.
Árið 2000 hóf Vegagerðin vinnu við gerð áætlunar um frágang gamalla ófrágenginna náma í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Afrakstur þeirrar vinnu var Langtímaáætlun um námufrágang 2004-2018. Upplýsingar eru skráðar í námuskrá Vegagerðarinnar, þar sem fram kemur hvaða efnistökusvæðum stofnunin ber ábyrgð á og hver afstaða hennar er til frágangs hverrar námu. Vegagerðin vinnur áfram að frágangi eldri náma samkvæmt langtímaáætlun þrátt fyrir að ekki séu ákvæði um slíkt í nýju lögunum um náttúruvernd. Í árlegri umhverfisskýrslu stofnunarinnar er gerð grein fyrir framvindu mála. Einnig má fá nánari upplýsingar um frágang efnistökusvæða frá árinu 2000 í sérstöku yfirliti sem Vegagerðin hefur tekið saman.
Aðrir aðilar sem leitast hafa við að ganga frá eldri efnistökusvæðum eru meðal annarra Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Fjarðabyggð. Landsvirkjun gekk frá gömlum námum í Fljótsdal í tengslum við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Orkuveita Reykjavíkur hefur gengið frá gömlum efnistökusvæðum á Hellisheiði samhliða framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun.
Leita þarf leyfis landeigenda þegar gengið er frá gömlum námusvæðum. Reynt skal að fara að óskum landeigenda um frágang eins og kostur er. Ef landeigandi hafnar því að gengið sé frá gamalli námu á landareign hans er eðlilegt að kostnaður og ábyrgð á frágangi námunnar færist frá námurétthafa yfir á landeiganda. Þar með verður landeigandi einnig ábyrgur fyrir tjóni sem hlotist getur t. d. vegna áfoks, hruns eða vatnsrofs úr ófrágenginni námu, sem og ábyrgur vegna slysahættu sem stafað gæti af námunni.
Sérstaka umfjöllun um frágang gamalla námusvæða í hrauni og gígum er að finna hér.
Uppfært 23. október 2020.