Námur

Valmynd


Hugtök

Hér eru útskýrð helstu hugtök sem varða efnistöku. Rétt er að taka fram að ekki er um tæmandi lista að ræða.  

Helstu hugtök sem varða efnistöku eru útskýrð hér.

Gamall traktor

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er að finna vegorðasafn þar sem skilgreind eru öll helstu íðorð sem notuð eru í vegagerð.


Aðalskipulag: Skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu.
Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.  

Athafnasvæði: Hluti af námusvæði ætlaður fyrir vinnslutæki og vinnubúðir.

Berg: 1) Klöpp, klettur.  2) Náttúrulegt jarðefni, kristallað eða glerkennt, fast eða laust í sér.

Berggrunnur: Fast berg jarðskorpunnar.

Bergtegund: Gerð bergs eftir uppruna.  

Burðarlag: Lag í yfirbyggingu veghlots milli styrktarlags og slitlags eða styrktarlags og bindilags. Burðarlagi er stundum skipt í tvennt, efri og neðri hluta burðarlags.

Deiliskipulag: Skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. 

Efnisgerð: Tegund steinefnis, sem notað er við vegagerð.

Efnisgæði: Eiginleikar steinefnis sem lýsa því hvort eða að hve miklu leyti steinefnið uppfyllir tilteknar kröfur.

Efnistaka: Brottnám steinefna, bergs eða lausra setlaga, til notkunar við mannvirkjagerð. 

Efnistökusvæði: Afmarkaður hluti námusvæðis eða skæringar þar sem verið er að taka steinefni hverju sinni.

Eignarland: Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. 

Eldvarp: Hóll eða hæð, sem orpist hefur upp við gosop.

Flái: Halli lands sem hefur verið mótað við framkvæmdir.

Framkvæmdaleyfi: Leyfi til framkvæmda í samræmi við skipulag sem ekki eru háðar ákvæðum laga um mannvirki.

Framkvæmdaraðili: Sá sem ætlar að nýta og hefur rétt á að nýta efni á efnistökusvæði. Framkvæmdaraðili þarf að hafa umboð frá námurétthafa til að geta numið efni.

Frákastsefni: Efni sem ekki nýtist í tiltekna framkvæmd.

Gervigígur: Hóll úr hraungjalli á stað þar sem hraunkvika hefur runnið yfir votlendi eða grunnt vatn. Dæmi: Landbrotshólar í Landbroti, Rauðhólar við Reykjavík og Skútustaðagígar við Mývatn. 

Gosberg: Storkuberg, sem myndast við storkun hraunkviku ofan jarðar, einnig í lofti eða vatni.

Grenndargróður: Ríkjandi gróðurfar í næsta nágrenni efnistökusvæðis.
Grjót: Samsafn af allstórum steinum.

Grjótnáma: Efnistökustaður, þar sem grjót er tekið. 
Gosminjar: Eldvörp, gervigígar og eldhraun frá nútíma.

Haugsetning: Flutningur og frágangur steinefnis ellegar jarðvegs á geymslustað, til síðari nota.

Haugsvæði: Afmarkaður hluti námusvæðis, þar sem jarð- og steinefni, unnin eða óunnin, eru geymd um lengri eða skemmri tíma.

Haugur: Birgðir af steinefni (unnu eða óunnu) sem hefur verið haugsett til geymslu um lengri eða skemmri tíma.

Hverfisvernd: Ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja. 

Jarðefni: 1) Efni í eða úr jörð.  2) Efni jarðar, notað til mannvirkjagerðar (í vegagerð).

Jarðlag: Samfellt lag af jarðefni (bergi, jarðvegi) sem greinist vegna eiginleika sinna eða uppruna bæði frá jarðefnum er liggja undir og ofan á því.

Jarðminjar: Jarðmyndanir, sem á einn eða annan veg eru sérstakar eða greinanlegar frá öðrum álíka myndunum.

Jarðmyndun: Myndanir úr lausum jarðlögum eða föstu bergi.

Jarðvegur: Hið efsta lausa jarðlag sem plönturætur geta smogið og fundið næringu í og er að nokkru leyti af lífrænum uppruna. 

Kjarni: Innsti hluti mannvirkja eins og brimvarnagarða og jarðvegsstífla. Kornastærð kjarna er breytileg eftir eðli mannvirkja.

Landnotkun: Ráðstöfun lands til mismunandi nota.

Landslagsheild: Landslag sem fólk upplifir að sé afmarkað af náttúrulegum (t.d. fjallahringur, fjörður) og/eða menningarlegum þáttum. 

Leyfisveitandi: Lögbært yfirvald sem veitir leyfi til framkvæmda.

Mat á umhverfisáhrifum: Við mat á umhverfisáhrifum er á skipulegan hátt gerð grein fyrir áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á umhverfið. Skylt er að meta umhverfisáhrif tiltekinna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, áður en framkvæmdaleyfi er veitt.

Minniháttar efnistaka: Efnistaka sem er önnur og meiri en efnistaka til eigin nota landeiganda, en minni en tilkynningarskyld og/eða matsskyld efnistaka.

Möl: Bergmol, þar sem meirihluti korna er í stærðarflokknum 4-63 mm.

Náma: Efnistökustaður þar sem unnið er að brottnámi efnis. 

Námusvæði: Svæði þar sem steinefni er losað, unnið og geymt, að meðtöldu landrými fyrir vinnubúðir. 

Námurétthafi: Landeigandi eða annar sá sem hefur yfirráðarétt yfir efnistökusvæði samkvæmt lögum. 

Námuvegur: Vegur frá námusvæði að þjóðvegi.

Náttúrulegur gróður: Allur gróður annar en sá sem telst vera ræktaður gróður.

Náttúruminjar: Náttúrufyrirbæri sem ákveðið hefur verið að vernda með friðlýsingu, friðun eða með öðrum hætti eða sem tekin hefur verið afstaða til að rétt sé að vernda. 

Náttúruverndarsvæði: 

  1. Friðlýst svæði og afmörkuð búsvæði friðaðra tegunda sem vernduð eru samkvæmt lögum um náttúruvernd. 
  2. Svæði og náttúrumyndanir á B- og C-hluta náttúruminjaskrár.
  3. Afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar vegna náttúru eða landslags samkvæmt öðrum lögum en lögum um náttúruvernd. 

Netlög: Hafsvæði 115 m út frá stórstraumsfjörumáli landareignar eða 115 m út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að. Netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum í sjó og stöðuvötnum.

Rippað efni: Efni sem losað er með riftönn jarðýtu eða gröfu.

Ræktað land: Land sem nýtt er til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum.

Salvi: Efni sem losnar við hverja sprengingju.

Sandur: Steinefni með kornastærðir á bilinu 0,063-4 mm.

Setnáma: Náma í lausum setlögum.

Skammær gróður: Gróður sem lifir stutt.

Sprengt berg: Steinefni úr föstu bergi, óháð kornastærðum og innbyrðis dreifingu þeirra, sem hefur verið sprengt eða rifið upp með öflugum tækjum.

Starfsleyfi: Starfsleyfi er ákvörðun viðkomandi heilbrigðisnefndar eða Umhverfisstofnunar í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreindan atvinnurekstur að því tilskyldu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfisins.

Stál: Lóðréttur endaflötur í bergskæringu eða berg­námu þar sem unnið er hverju sinni.

Steinefni: Mulningur úr bergi eða náttúrulega brotið berg.

Stiklingur: Greinarbútur sem klipptur hefur verið af tré til gróðursetningar.

Stórgrýti: Grjót á stærðarbilinu 1-2 m.

Straumvatn: Rennandi vatn í farvegi, af hvaða stærð sem er.

Svarðlag: Frjósamt, efsta lag jarðvegs ásamt gróðursverði.

Tippur: Staður þar sem jarðefni er losað af flutningatæki. Á tipp getur myndast haugur, annað hvort til tímabundinnar geymslu, til síðari frágangs í vegi eða varanlegrar geymslu.

Umhverfisáhrif: Áhrif framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfi. Þar með eru þó ekki talin þjóðhagsleg áhrif og arðsemi einstakra framkvæmda. 

Ummyndun: Það að storkuberg eða setberg breytist að nokkru leyti að gerð og efnasamsetningu tiltölulega grunnt í jörðu, einkum vegna áhrifa frá jarðhita.

Uppgræðsla: Framkvæmdir í þeim tilgangi að auka gróðurþekju eða flýta fyrir endurheimt landkosta.  

Vatnsverndarsvæði: Afmarkað svæði á vatnasviði vatnsbóla þar sem vatnsvernd hefur verið komið.

Vegflái: Hallandi hliðarflötur veghlots, með mótuðu jarðvegsyfirborði, frá vegarbrún að jarðbyrði eða skurðbotni.

Veghelgunarsvæði: Svæði meðfram vegi þar sem samþykki Vegagerðarinnar þarf fyrir mannvirkjagerð.

Veiðivatn: Á eða stöðuvatn þar sem fiskur þrífst. 

Vistheimt: Endurnýjun vistkerfis sem hefur hnignað, raskast eða eyðst.

Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. 
Til baka

Þú ert hér: Forsíða > Jarðefnanotkun > Hugtök

Forsíða

  • Forsíða
  • Undirbúningur
  • Leyfisveitingar
  • Efnisvinnsla & frágangur
  • Jarðmyndanir og landslag
  • Jarðefnanotkun

Jarðefnanotkun

  • Notkun jarðefna
  • Námur á Íslandi
  • Hugtök

Aukaval

  • Um vefinn
  • Hafa samband

Leita á vefnum


Námur.is | namur@namur.is

  • Landsvirkjun
  • Umferðarstofnun
  • Vegaverðin
Þetta vefsvæði byggir á Eplica